154. löggjafarþing — 74. fundur,  19. feb. 2024.

lögreglulög.

707. mál
[17:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinni spurningu og fagna því að við erum sammála, ég og hv. þingmaður, í því að það þurfi að standa vörð um lögregluna og löggæslu í landinu. Það er gott að finna þann ríka vilja hér í þingsal og meðal allra þingmanna að við kunnum að meta þau störf sem lögreglan innir af hendi og að við ætlum að standa vörð um þá í hættulegum heimi og hættulegum aðstæðum sem þetta fólk setur sig í á hverjum einasta degi. Ég vil líka fá að ítreka að við eigum framúrskarandi lögreglu á Íslandi, við eigum frábæra lögreglumenn sem sinna sínum störfum oft í mjög krefjandi og erfiðum aðstæðum og þá er það hlutverk okkar, löggjafans hér, að gera allt sem við getum og í okkar valdi stendur til þess að þeir geti mætti vinnu og sinnt verkefnum sínum af öryggi og fumleysi og þetta frumvarp er liður í því að auka heimildir lögreglunnar.